Túba

Túban er stærsta hljóðfærið í málmblásturshljóðfærafjölskyldunni. Hún lítur út eins og langt rör, sem er vafið upp í allskonar slaufur og flækjur. Á túbunni eru þrír takkar, sem við köllum ventla, en með því að ýta á þá getum við spilað mismunandi tóna. Til þess að fá tón úr hljóðfærinu þarf að blása í munnstykkið og puðra aðeins með vörunum í leiðinni. Það þarf mikið loft til að spila á túbu.

Ungir nemendur byrja yfirleitt á að spila á annað og minna málmblásturshljóðfæri, svo sem barítónhorn, á meðan þeir þjálfa lungun og eru að vaxa, en skipta síðar yfir á túbu. Túban er stórt hljóðfæri, svo að túbuleikarinn þarf að vera nokkuð stór til þess að geta haldið á henni. Algengast er að nemendur byrji 10-12 ára að spila á túbu, en það fer eftir líkamsstærð hvers nemanda. Tónlistarskólinn leigir út hljóðfæri til nemenda sinna fyrstu árin en yfirleitt er gert ráð fyrir að nemendur eignist eigið hljóðfæri þegar þeir eru komnir nokkuð áleiðis í námi sínu. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum.

Túbunámið skiptist í einkatíma og hljómsveitaræfingar með Skólahljómsveit Fljótsdalshéraðs, en að auki fá nemendur tækifæri til að spila í minni samspilshópum. Kennt er eftir aðalnámskrá tónlistarskóla og túbunemendur byrja að sækja tónfræðitíma þegar kennarar telja það tímabært.

Hér fyrir neðan má sjá nokkur skemmtileg túbutóndæmi:

Hér spilar Øystein Baadsvik Czardas með Strengjahljómsveit Trondheim Sólistanna.

Hér má sjá fjóra túbuleikara spila á Sousafóna, sem eru túbur til marseringar.

Hér má heyra lagið Havana spilað á túbu.

Hér má sjá hljóðfærakynningu frá túbuleikara Philharmonia Orchestra í London.

Túban er mjög stórt hljóðfæri, en það er meira að segja til risatúba!

Svæði

Tónlistarskólinn á Egilsstöðum

Tjarnarlönd 11, 700 Egilsstaðir / Sími: 470 0645 / Netfang: tonlistarskoli@egilsstadir.is
Skólastjóri: Sóley Þrastardóttir (soley@egilsstadir.is)