Þverflautan er blásturshljóðfæri sem tilheyrir tréblástursfjölskyldunni. Í dag eru þverflautur gerðar úr málmi, en í gamla daga voru þær úr tré. Þess vegna tilheyrir þverflautan tréblásturshljóðfærunum. Þverflautan er mjög lík blokkflautunni, en nafnið kemur til af því að henni er haldið þvert á líkama þverflautuleikarans. Þverflautan er eitt langt rör með mörgum tökkum og litlu opi næstum því efst á rörinu. Flautuleikarinn blæs yfir opið þannig að hluti loftsins fer yfir þverflautuna og hluti þess ofan í opið. Þá verður til hinn fallegi tónn þverflautunnar.
Í þverflautufjölskyldunni eru fjórar þverflautur: piccoloflauta, c-flauta (venjuleg flauta), altflauta í g og bassaflauta í c. Fleiri þverflautur eru til, en þær eru afar sjaldgæfar.
Þverflautan gegnir veigamiklu hlutverki í mörgum hljómsveitum, svo sem sinfóníuhljómsveitum og lúðrasveitum. Þar trónir þverflautan á toppnum og spilar yfirleitt björtustu tónana.
Algengast er að nemendur hefji þverflautunám 8-10 ára. Tónlistarskólinn leigir út hljóðfæri til nemenda sinna fyrstu árin en yfirleitt er gert ráð fyrir að nemendur eignist eigið hljóðfæri þegar þeir eru komnir nokkuð áleiðis í námi sínu. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum.
Þverflautunámið skiptist í einkatíma og hljómsveitaræfingar með Skólahljómsveit Fljótsdalshéraðs, en að auki fá nemendur tækifæri til að spila í minni samspilshópum. Kennt er eftir aðalnámskrá tónlistarskóla og þverflautunemendur byrja að sækja tónfræðitíma þegar kennarar telja það tímabært.
Hér fyrir neðan má sjá nokkur skemmtileg þverflaututóndæmi:
Stefán Ragnar Höskuldsson, heimsfrægur flautuleikari frá Neskaupstað, spilar flautu hörpukonsert
Jasmine Choi leikur Czardas eftir Monti
Projektorchester Wurzburg leikur Always Look on the Bright Side of Life
Þverflautu- og óbódúett í forleiknum að óperunni William Tell