SAXÓFÓNN

Saxófónn er blásturshljóðfæri sem tilheyrir tréblástursfjölskyldunni. Saxófónn er reyndar búinn til úr málmi, en vegna þess að tónmyndun saxófóns er mjög lík tónmyndun klarínettunnar fær hann að vera með tréblásturshljóðfærunum. Saxófónninn er mjög ungt hljóðfæri í tónlistarsögunni. Hann varð ekki til fyrr en árið 1840, en þá langaði hljóðfærasmiðinn Adolphe Sax að búa til hljóðfæri sem gæti fyllt í tónrýmið á milli tréblásturs- og málmblásturshljóðfæra í lúðrasveitum.

Í saxófónfjölskyldunni eru fjórir saxófónar, sópransaxófónn, altsaxófónn, tenórsaxófónn og barítónsaxófónn. Til eru aðrar gerðir saxófóna, en þær eru sjaldgæfar.

Saxófónninn er algengt hljóðfæri í lúðrasveitum og djasshljómsveitum. Það eru einnig til nokkur verk fyrir sinfóníuhljómsveit þar sem saxófónninn fær að njóta sín.

Algengast er að nemendur hefji saxófónnám á aldrinum 8-10 ára. Tónlistarskólinn leigir út hljóðfæri til nemenda sinna fyrstu árin en yfirleitt er gert ráð fyrir að nemendur eignist eigið hljóðfæri þegar þeir eru komnir nokkuð áleiðis í námi sínu. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum.

Saxófónnámið skiptist í einkatíma og hljómsveitaræfingar með Skólahljómsveit Fljótsdalshéraðs, en að auki fá nemendur tækifæri til að spila í minni samspilshópum. Kennt er eftir aðalnámskrá tónlistarskóla og saxófónnemendur byrja að sækja tónfræðitíma þegar kennarar telja það tímabært.

Hér fyrir neðan má sjá nokkur skemmtileg saxófóntóndæmi:

Saxófónsóló í Myndir á sýningu eftir Mussorgsky.

Svona getur gerst þegar tveir saxófónleikarar hittast í neðanjarðarlest.

Haukur Gröndal spilar djass.

Hómer Simpson tekur epískt saxófónsóló í Simpson-þáttunum.

Eitt frægasta saxófónsóló poppsögunnar.

Svæði

Tónlistarskólinn á Egilsstöðum

Tjarnarlönd 11, 700 Egilsstaðir / Sími: 470 0570 / Netfang: tonlistarskoli.egilsstadir@mulathing.is
Skólastjóri: Sóley Þrastardóttir (soley.thrastardottir@mulathing.is)