Flýtilyklar
Ferðasaga af Blásaramóti í Reykjanesbæ
Blásaramót í Reykjanesbæ
Það var að morgni 23. Janúar, sem við settum land undir fót og fórum þvert yfir landið. Ferðinni var heitið til Reykjanesbæjar á landsmót blásarasveita á Íslandi. Í hópnum voru 4 nemendur frá Egilsstöðum og einn nemandi frá Reyðarfirði.
Samband Íslenskra Skólalúðrasveita heldur landsmót annað hvert ár. Síðustu árin hafa mótin þó verið þrjú talsins, skipt eftir aldri og reynslu nemenda. Okkar mót var haldið fyrir elstu nemendurna, og var það haldið í splunkunýjum tónlistarskóla Reykjanesbæjar, sem er í Hljómahöllinni. Þar er aðstaðan eins og best verður á kosið, með fallegum tónleikasölum, minni og stærri kennslustofum og öllum græjum sem manni getur dottið í hug að nota.
Veðurguðir Reykjanesbæjar tóku einnig vel á móti okkur, og buðu upp á úrval „skítaveðurs“. Við fengum að kynnast öllum þeim leiðinlegu veðrum sem þeir hafa upp á að bjóða, ískulda og svelli yfir öllu, svo snjóaði léttri hulu yfir svellið og með því fór að blása hressilega. Á laugardagseftirmiðdag hóf að rigna (á hlið!), og á sunnudeginum var hífandi rok.
Við komum til Reykjanesbæjar seinni partinn, eftir smá stopp í Reykjavík, heimsókn í Kringluna og Tónastöðina. Við vorum langfyrst og fengum góðan tíma til þess að koma okkur fyrir í Njarðvíkurskóla og skoða tónlistarskólann. Eftir kvöldmat hófust svo æfingar. Þetta mót var einskonar tilraunamót, þarna var krökkunum í fyrsta skipti skipt upp í hópa eftir hljóðfærum, og æfðu td. 48 þverflautur saman, 34 klarinett, um 20 trompetar og 15 slagverksnemendur. Hver hópur æfði saman 2-3 lög sem voru svo flutt á tónleikum á sunnudeginum.
En æfingar voru nú ekki það eina sem við gerðum. Á laugardeginum var hópunum skipt upp og ferðuðumst við á milli námskeiða. Það voru þrjú námskeið í boði. Samúel Jón Samúelsson (Sammi í Jagúar) var með samba-námskeið, þar sem hópurinn lærði sambatakta og spilaði saman. Snorri Jón Heimisson var með námskeið í því hvernig maður finnur lög á internetinu og breytir þeim í nótur á auðveldan hátt, og svo var Ingi Garðar Erlendsson með tónsmíðasmiðju. Þar fengu nemendur að kynnast því hvernig er hægt að semja tónlist með bara nánast hverju sem er. Meðal þess sem var notað í þessari tónsmíðasmiðju voru plastglös, gulrætur, epli, vídjó af allskonar tennisleikjum, vídjó af steinum og bara það sem manni dettur í hug (já, eða dettur ekki í hug, þetta var svolítið frumlegt hjá honum).
Kvöldið byrjaði á einskonar pub-quiz (án pöbbsins), þar sem var spurt um allt mögulegt tengt tónlist. Okkar krakkar stóðu sig frábærlega og voru aðeins nokkrum stigum frá sigurliðinu. Þau svöruðu spurningum sem fáir aðrir gátu svarað, eins og hver er höfundur lagsins Take Five? Við áttuðum okkur þó á því að maður þarf kannski að kíkja aðeins oftar upp í hægra hornið, því þegar kom að spurningunni „hver samdi Jingle Bells?“, var ekki mikið um svör. Þó höfðu allir í salnum örugglega spilað það lag oftar en einu sinni.
Kvöldið hélt svo áfram með balli, þar sem Big Band Samúels J. spilaði undir dansi. Þau voru þreytt og ánægð þegar þau skriðu í svefnpokana sína, langur dagur að baki og annar eins framundan.
Það fékk enginn að sofa út á sunnudagsmorgninum, æfingar áttu að hefjast kl. 9, og nú þurfti að leggja lokahönd á þau lög sem hver hópur ætlaði að flytja á tónleikum. Eftir æfinguna var skipt niður eftir hljóðfærahópum, og fóru tréblásarar, málmblásarar og slagverksleikarar hver í sitt hornið, þar sem þau fengu að læra um viðhald og viðgerðir á hljóðfærunum sínum.
Eftir hádegið var svo lokaæfingin, og eftir hana tók við kynning á tónlistardeild Listaháskóla Íslands og tónlistarkennaradeild Tónlistarskóla FÍH. Það voru deildarforsetar sem við fengum í heimsókn, Tryggvi M. Baldvinsson frá LHÍ og Sigurður Flosason frá FÍH, sem sögðu okkur frá öllu því sem er í boði í skólunum þeirra.
Þá var komið að því, eftir tvo daga og ca. 6 klukkutíma af æfingum, stóðu nemendur frammi fyrir tónleikum á stóra sviðinu. Á tónleikunum flutti hver hljóðfærahópur 2 lög og hver hópur úr tónsmíðasmiðju Inga Garðars flutti eitt nútímaverk. Tónleikarnir gengu eins og í sögu, allir stóðu sig með prýði og uppskáru mikið lófaklapp í lok tónleika.
Eftir tónleika var aðeins eitt verkefni eftir, að pakka niður dótinu og halda heim á leið. Við komumst samt ekki langt, því öllu flugi var aflýst á sunnudeginum og urðum við því strandaglópar í Reykjavík yfir nóttina. En allt gekk þó upp að lokum og rétt fyrir hádegi mánudags voru allir komnir til síns heima.
Ég held að ég tali fyrir alla þátttakendur mótsins þegar ég segi að þetta landsmót hafi tekist einstaklega vel, og að þetta nýja skipulag fyrir elstu nemendurna sé vonandi komið til að vera.