Flýtilyklar
Starfið það sem af er vetri
Þá fer að líða að því að desember gangi í garð og önnin hefur liðið hratt. Nóg hefur verið að gera hjá okkur í haust.
Við hófum kennslu 31. ágúst. Þann 11. september var árlegt haustþing tónlistarkennara en þá koma langflestir tónlistarkennarar á Austurlandi saman og ræða sín mál. Að þessu sinni var haustþingið haldið á Hótel Hallormsstað. Ýmis þörf mál voru rædd en þó voru kjaramál ofarlega á baugi í ljósi verkfalls sl. vetrar og einnig þess að kjarasamningar runnu út í lok október. Við fengum fulltrúa stærstu sveitarfélaganna til að koma og taka þátt í pallborðsumræðum með okkur um kjaramál og almennt um tónlistarskólamálin og voru þær umræður mjög gagnlegar.
Tónleikar og tónfundir eru fastur liður í starfi tónlistarskólans eins og flestra annarra tónlistarskóla. Oft er sagt frá stóru tónleikunum og þeir auglýstir vel en stundum gleymist að greina frá hinum smærri sem ekki fer eins mikið fyrir en eru samt sem áður oft alveg jafn merkilegir og mikilvægir.
Eitt af því sem okkur þykir afskaplega vænt um er að við fáum að fara mánaðarlega með nemendur í heimsókn á sjúkrahúsið, og nú í haust í fyrsta skiptið á Dyngju, hið nýja og glæsilega hjúkrunarheimili. Eftir heimsóknir þangað í haust erum við sannfærð um að þeir sem þar dvelja búi við eins góðar aðstæður og hugsanlegt er og að allt sé gert til að fólki geti liðið þar sem best. Við vonum að þessar stuttu heimsóknir okkar gleðji þá sem koma til að hlusta. Það má einnig geta þess að við erum ekkert þau einu sem heimsækjum Dyngju því að Tónlistarskólinn í Fellabæ gerir það líka og einnig fleiri.
Við höldum fjölmarga tónfundi á hverju ári, hver kennari heldur a.m.k. tvo tónfundi og síðan eru líka allavega tveir opnir tónfundir á ári. Á tónfundum gefst nemendum tækifæri til að æfa sig í að koma fram fyrir áheyrendur og á tónfundum er allt í lagi að gera smá mistök því að það er mikilvægur hluti af náminu að læra að gera mistök, bjarga sér út úr vandræðum og halda áfram með lagið sem maður er að spila og að læra svo af mistökunum. Eftir á er svo best að reyna frekar að hugsa um það sem vel gekk en hitt.
Á hverri önn bjóðast nemendum ýmis tækifæri til að koma fram opinberlega. Það er stundum haft samband við Tónlistarskólann af einstaklingum og fyrritækjum og nemendur beðnir um að koma fram. Kennarar skólans eru líka duglegir við að gefa nemendum tækifæri til að koma fram við ýmis tækifæri. Þá ber að nefna samstarf grunnskólans og leikslólanna við Tónlistarskólann á Egilsstöðum en þar reynum við að leggja okkar af mörkum. við heimsækjum reglulega leikskólana og fáum heimsóknir í staðinn frá nemendum þeirra sem eiga að koma í 1. bekk grunnskóla. Við tökum þátt í öllum árshátíðum Egilsstaðaskóla og einnig fjölmörgum öðrum uppákomum, t.a.m. vorum við með tvö tónlistaratriði þann 16. nóvember síðastliðinn á degi íslenskrar tungu og til stendur að nemendur Tónlistarskólans sjái alfarið um tónlistarflutning þegar dansað verður í kringum jólatréð á jólaskemtun Egilsstaðaskóla þann 18. desember nk.
Þess ber að geta að myndin sem fylgir fréttinni er af stúlkum í söngforskóla 4. bekkjar á opnum tónfundi þann 26. október síðastliðnum